Fagmennska

Eftir Sigurð Má Guðjónsson og Ara Trausta Guðmundsson:

"Löggilding iðngreina er í samræmi við kröfuna um öryggi og vönduð og fagleg vinnubrögð. Stefnan stuðlar líka að því að varðveita mikilvæga þekkingu."

Á forsíðu vikublaðsins Reykjavíkur hinn 17. janúar er auglýsing frá löggiltum múrarameistara. Þar eru tilgreindar flísalagnir sem hluti af þeirri þjónustu sem hann býður upp á. Eflaust hafa margir lesendur lagt flísar eða fengið einhvern nákominn til að hjálpa sér við slíkt. En hitt kannast þó flestir við, að hafa leitað til fagmanns í greininni. Ef ekki til að leggja flísar með gæði í huga, þá til þess að flota gólf, múra upp veggi, eða í aðra múrvinnu. Múrverk er fyrst og fremst fagvinna þar sem ending og áferð skipta miklu máli. Viljum við halda í iðnina? Sjá hana eftirsóknarverða, löggilta og að vinnan teljist vönduð, fagmannleg og verkið fallegt? Að virða verðmæti og gera vel Þegar fram koma hugmyndir um að endurskoða og jafnvel afnema löggildingu iðngreina þurfum við að staldra við. Vissulega draga menn ekki alltaf skarpar línur milli tilrauna þess handlagna við að afgreiða handverk, á milli handverks og hönnunar eða handverks og lista, en hugmyndin um ábyrga og vel menntaða iðnaðarmenn er aldagömul og gegn. Hún er líka í samræmi við kröfur um að virða verðmæti og hamla gegn sóun. Það er hlutverk fagmannsins að skila vönduðu verki sem greitt er fyrir. Löggilding iðngreina er í samræmi við kröfuna um öryggi og vönduð og fagleg vinnubrögð.

Stefnan stuðlar líka að því að varðveita mikilvæga þekkingu. Löggilding er réttmæt Um 60 löggiltar iðngreinar eru skráðar á Íslandi. Sumar hafa verið fjölmennar, aðrar fámennar og sumar eru við það að gleymast. Námsleiðirnar eru nokkrar en nám undir handleiðslu meistara er algengast. Í sumar iðnir vantar fólk, aðrar eru vinsælar og enn aðrar hafa takmaðarkað aðgengi vegna fárra meistara. Vissulega getur farið svo að iðn hverfi eða að tækniþróun geri löggildingu úrelta. Það verður að teljast til undantekningar. Allt þarf þetta umræðna og endurskoðunar við en þá með það fyrir augum að styrkja iðngreinarnar og efla iðnnám. Af hverju? Til þess að auka fjölbreytni í atvinnulífi, höfða til ungs fólks með ólíka hæfileika og rækta það sem manninum er eiginlegt: Að skapa, rækta, upphugsa og stunda. Löggiltar iðngreinar mynda kjölfestu en svo erum við flest eitthvað að stússa án beinnar hjálpar fagmanna. Þýskt dæmi Við skulum horfa til Þýskalands og nota iðngreinina flísa- og mósaíklagnir til þess að skoða hvað um fagið varð eftir að löggilding 53 af 94 iðngreinum þar í landi var afnumin árið 2004. Þar á meðal var einmitt sú sérgrein sem er innan iðnar múrarans hér hjá okkur. Aðilar á borð við Félagsvísindastofnun við Háskólann í Göttingen og iðnsambönd hafa fylgst í áratug með þróun þessa fags og hinna sem ekki eru löggilt lengur og birt niðurstöður sínar. Í iðnumdæmi Erfurt fjölgaði t.d. fyrirtækjum í greininni úr 226 í 1.232 á tíu árum og er það yfir 500% fjölgun. Lærlingum fækkaði úr 54 í 14.

Nú eru aðeins 8 nemar eftir á samningi hjá meistara en meisturunum fækkar óðum. Eftirspurn er samt mikil eftir faglærðum aðilum í greininni og beiðnum um verkefni til þeirra fjölgaði mikið. Umfang verkefna í heild var aftur á móti svipað. Þar með deildust verkefni á miklu fleiri fyrirtæki en áður, sem flest eru lítil, jafnvel einyrkjar. Veruleg fagþekking hefur glatast, og margir þeirra menntuðu sem eftir eru hafa nóg að gera við að lagfæra galla eftir fúskarana. Þegar litið er heilt yfir handverk sem gefið var frjálst, ef nota má það orðalag, kemur í ljós að dæmið hér að ofan er nokkuð lýsandi. Á fimm árum eftir 2004 voru 60% nýrra handverksfyrirtækja í Þýskalandi horfin og gjaldþrot mjög algeng. Fyrir 2004 lifðu 70% nýstofnaðra fyrirtækja í sömu greinum lengur en fimm ár. Svört vinna í byggingariðnaði jókst að sama skapi, undirboðum fjölgaði í harðri samkeppninni, laun lækkuðu til langs tíma litið og skaðabótakröfum vegna gallaðra verka fjölgaði. Stöldrum við Sannarlega er ekki hægt að alhæfa um allar iðnir eða spegla reynslu af afnámi löggildingar í einu landi fyllilega yfir á annað. Sagan ytra segir okkur margt engu að síður.

Nú er verið að skoða iðnnám í heild á Íslandi og unnið hefur verið að úttekt á löggildingu iðngreina, jafnvel með breytingar í huga. Þá gildir að vinna verkefnin í samráði og með hag iðnaðarmanna, kaupenda þjónustunnar og ungs fólks að leiðarljósi. Vinnan verður líka að taka til þess hvernig má aðlaga erlenda fagmenn, sem hingað flytja, að ábyrgu fagkerfi. Þeir eru jafn mikilvæg viðbót við vinnuafl í landinu og erlendir háskólaborgarar eða ófaglært fólk. Atvinnufrelsi og fagmennska eru ekki eitt og það sama, hvað sem snertiflötum kann að líða. Telji einhver að Evrópusambandið knýi á um afnám löggildingar iðngreina, er það rangt. Þaðan hefur komið beiðni til sambandslandanna um að skoða og skilgreina þarfir fyrir löggiltar greinar. Engar kvaðir eru um fækkun þeirra. Það er eftir sem áður í höndum löggjafa hvers lands, í góðri sátt við fagstéttirnar, að breyta einhverju í þessum efnum. Föstudaginn 23. janúar var fjallað í fjölmiðlum um þriðjungs fækkun nema í íslenska byggingargeiranum. Viljum við að slík öfugþróun einkenni flestar iðngreinar? Sigurður Már er bakara- og konditormeistari. Ari Trausti er rithöfundur og jarðvísindamaður.

Nýjar fréttir

Öndverðarnes